Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík jafnaði tveimur færri – Sjöundi sigur Víðismanna
Dagur Ingi Hammer skoraði sjötta mark sitt á tímabilinu þegar hann tryggði Grindavík jafntefli á Akureyri. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2024 kl. 08:40

Grindavík jafnaði tveimur færri – Sjöundi sigur Víðismanna

Grindavík lék gegn Þór á Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu á mánudaginn og lauk leiknum með 2:2 jafntefli. Þrátt fyrir að Grindvíkingar væru orðnir tveimur mönnum færri þá skoraði Dagur Ingi Hammer Gunnarsson jöfnunarmark á lokamínútu leiksins.

Víðismenn léku einnig á mánudag og tóku þá á móti Augnabliki í þriðju deild karla sem þeir unnu 3:0. Víðismenn halda sínu striki og eru í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Kára frá Akranesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þór - Grindavík 2:2

Grindvíkingar náðu forystu á fyrstu mínútum leiksins með marki Kwame Quee (2'). Grindvíkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að koma inn öðru marki.

Þórsarar gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik og sneru leiknum sér í hag. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik jöfnuðu þeir leikinn (55').

Eric Vales Ramos var vikið af velli á 71. mínútu og fljótlega eftir það tóku heimamenn forystu (77').

Útlitið varð enn svartara fyrir Grindavík þegar Nuno Jorge Nobre Barbosa Malheiro fékk að líta seinna gula spjaldið sitt í leiknum fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Þrátt fyrir að vera tveimur færri jafnaði Daguri Ingi Hammer Gunnarsson með marki á lokamínútu venjulegs leiktíma (90') og þótt sex mínútum væri bætt við náðu Þórsarar ekki að nýta sér liðsmuninn og lyktaði leiknum því með jafntefli.

Þegar mótið er hálfnað er Grindavík í fjórða sæti með sautján stig. ÍBV er í því þriðja (19 stig), Njarðvík í öðru (20 stig) og Fjölnir í því fyrsta (24 stig). Keflavík er í níunda sæti með 12 stig).


Víðir - Augnablik 3:0

Bessi Jóhannsson skoraði annað mark Víðis. Mynd/Víðir á Facebook

Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það varnarjaxlarnir Einar Örn Andrésson og Bessi Jóhannsson sem voru á skotskónum í þeim síðari. Einar Örn kom Víði í forystu (60') og Bessi tvöfaldaði hana (63'). Markús Máni Jónsson gulltryggði sigurinn með marki á 74. mínútu.

Þetta var sjöundi sigur Víðismanna á tímabilinu og þeir eru í harðri samkeppni á toppi deildarinnar.